Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins

Kyleena 19,5 mg leginnlegg  
levónorgestrel

 

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar.

  • Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.
  • Leitið til heilbrigðisstarfsmanns ef þörf er á frekari upplýsingum.
  • Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum.
  • Látið heilbrigðisstarfsmann vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

1. Upplýsingar um Kyleena og við hverju það er notað

Kyleena er T laga leginnlegg, einnig þekkt sem hormónalykkja. Það kemur í veg fyrir þungun í allt að fimm ár – það er getnaðarvörn. Kyleena inniheldur hormón sem kallast levónorgestrel.

Mynd 1: Kyleena hormónalykkja

Kyleena hormónalykkja

Hvernig Kyleena virkar
Heilbrigðisstarfsmaður mun koma Kyleena fyrir í leginu. Þegar því hefur verið komið fyrir gefur það stöðugt frá sér lítið magn af hormóni.

Kyleena kemur í veg fyrir að sæði og egg komist í snertingu hvort við annað og kemur þannig í veg fyrir þungun. Þetta gerist á eftirfarandi hátt:

  • Það veldur því að slímhúð í leghálsinum þykknar. Þetta kemur í veg fyrir að sæði komist í gegn.
  • Það veldur því að slímhúð legsins (legslíman) helst þunn.

Mynd 2: Kyleena í leginu

Kyleena í leginu

 

Top

2. Áður en byrjað er að nota Kyleena

Gott að vita um Kyleena

Heilbrigðisstarfsmaður þarf að vera viss um að þessi getnaðarvörn henti þér. Þess vegna mun hann fyrst spyrja þig nokkurra spurninga um heilsufar þitt. Að því loknu færðu afhentan lyfseðil.
Sem getnaðarvörn kemur Kyleena í veg fyrir þunganir. Engin getnaðarvörn kemur þó í veg fyrir allar þunganir. Á hverju ári verða um 2-3 af hverjum 1.000 konum sem nota Kyleena þungaðar.
Það veitir ekki vörn gegn HIV-sýkingu eða öðrum kynsjúkdómum.
Þaðer ekki neyðargetnaðarvörn eins og „daginn eftir pillan“. Konur sem hafa haft samfarir án getnaðarvarnar skömmu fyrir uppsetningu þess geta orðið þungaðar.

EKKI má nota Kyleena ef:

  • þú ert þunguð (sjá kaflann „Meðganga, brjóstagjöf og frjósemi“ hér fyrir neðan)
  • þú ert með sýkingu í legi, eggjaleiðurum eða eggjastokkum (bólgusjúkdóm í grindarholi) eða ef þú hefur fengið slíka sýkingu nokkrum sinnum áður.
  • þú ert með sjúkdóm sem eykur líkurnar á því að þú fáir sýkingar í grindarhol. Til dæmis: kynsjúkdóma eða sjúkdóma sem draga úr getu líkamans til að berjast gegn sýkingum, eins og langt gengna HIV-sýkingu.
  • þú ert með sýkingu í leggöngum eða leghálsi
  • þú hefur eignast barn, farið í fóstureyðingu eða upplifað fósturlát á síðustu þremur mánuðum og fengið í kjölfarið sýkingu í legið
  • niðurstöður úr síðasta leghálsstroki (leghálsskimun) voru óeðlilegar
  • þú ert með krabbamein í legi eða leghálsi – eða heilbrigðisstarfsmaður heldur að þú gætir verið með það
  • þú ert með æxli sem þarfnast prógestagen hormóns til að vaxa – eins og brjóstakrabbamein
  • þú ert með blæðingu frá leggöngum og orsökin er óþekkt
  • þú ert með legháls eða leg sem hefur ekki eðlilega lögun – eins og af völdum vaxtar í legi sem ekki er krabbamein (sléttvöðvaæxli)
  • þú ert með lifrarsjúkdóm eða lifraræxli
  • þú ert með ofnæmi fyrir levónorgestreli eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins (talin upp í kafla 6).

    Ekki má nota Kyleena ef eitthvað af ofantöldu á við um þig – ef þú ert ekki viss skaltu leita ráða hjá heilbrigðisstarfsmanni.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Áður en Kyleena er notað skaltu leita ráða hjá heilbrigðisstarfsmanni ef þú:

  • ert með sykursýki. Almennt þarftu ekki að breyta sykursýkislyfjunum þínum á meðan þú notar Kyleena, en heilbrigðisstarfsmaðurinn gæti þurft að athuga það
  • ert með flogaveiki – þú gætir fengið flog (krampa) við uppsetningu eða fjarlægingu Kyleena.
  • hefur áður upplifað þungun sem er utan við legið (utanlegsþungun)
  • ert með mígreni sem veldur sjóntruflunum – eins og skyndilegri sjónskerðingu á öðru auga – eða sem veldur öðrum vandamálum (mígreni með forboða) eða ef þú ert með mikinn höfuðverk af óþekktum uppruna
  • ert með gulu (húðin, neglurnar og augnhvítan verða gul)
  • ert með háan blóðþrýsting
  • hefur einhvern tíma fengið heilablóðfall eða hjartaáfall.

Ef eitthvað af ofantöldu á við um þig (eða ef þú ert ekki viss) skaltu leita ráða hjá heilbrigðisstarfsmanni fyrir uppsetningu Kyleena.

Á meðan þú notar Kyleena skaltu tafarlaust leita ráða hjá heilbrigðisstarfsmanni ef þú:

  • finnur fyrir einkennum þungunar eða ef þungunarpróf er jákvætt – sjá kaflann hér fyrir neðan „Meðganga, brjóstagjöf og frjósemi“
  • finnur fyrir einkennum þungunar en einnig verkjum, blæðingu frá leggöngum eða sundli. Þetta getur þýtt að um sé að ræða utanlegsþungun – sjá kafla 4 undir „Utanlegsþungun“
  • ert með magaverk, hita eða óvenjulega útferð úr leggöngum eða verki við samfarir – þetta getur þýtt að þú sért með sýkingu og verðir að fá lyf sem fyrst. Sjá kafla 4 undir „Sýking í grindarholi“
  • finnur fyrir verkjum við samfarir - þú gætir verið með lítinn vökvafylltan sekk (blöðru) í eggjastokk. Sjá kafla 4 undir „Blöðrur á eggjastokkum“
  • ert með mikla verki, mjög miklar blæðingar eða finnur ekki lengur fyrir þráðum Kyleena – þú gætir verið með rof á legi. Sjá kafla 4 undir „Rof“.

Leitaðu tafarlaust ráða hjá heilbrigðisstarfsmanni ef þú ert með einhver af ofangreindum einkennum.

Leitaðu einnig ráða hjá heilbrigðisstarfsmanni varðandi Kyleena ef þú:

  • færð mígreni eða mjög mikinn höfuðverk í fyrsta skipti
  • tekur eftir því að húðin, neglurnar og augnhvítan eru gul – þetta er einkenni gulu
  • tekur eftir hækkun á blóðþrýstingi
  • hefur fengið heilablóðfall eða hjartaáfall.

Heilbrigðisstarfsmaðurinn ákveður hvort það sé óhætt fyrir þig að halda áfram að nota Kyleena.

Vertu vakandi fyrir einkennum um að Kyleena hafi færst úr stað
Einkenni um að Kyleena hafi færst úr stað eru:

  • þú getur ekki lengur fundið fyrir þráðum Kyleena í leggöngunum með fingrinum – sjá kafla 3 undir „Hvernig þú getur athugað hvort Kyleena hafi færst úr stað“
  • þú finnur fyrir neðri plastenda Kyleena - eða maki þinn finnur fyrir honum - sjá kafla 3 undir „Hvernig þú getur athugað hvort Kyleena hafi færst úr stað“
  • Tíðablæðingarnar breytast skyndilega. Til dæmis: blæðingarnar hafa stöðvast við notkun Kyleena og svo byrja blæðingarnar allt í einu aftur.

Þessi einkenni gætu þýtt að Kyleena hafi dottið út – sjá kafla 4 undir „Ef Kyleena dettur út“. Það getur líka þýtt að þú sért með rof á legi – sjá kafla 4 undir „Rof“.

Ef þú ert með einhver þessara einkenna um að Kyleena hafi færst úr stað skaltu tafarlaust leita ráða hjá heilbrigðisstarfsmanni. Þú skalt ekki hafa samfarir nema þú notir smokk eða hettu fyrr en heilbrigðisstarfsmaður hefur athugað hvort það hafi færst úr stað.

Maki þinn gæti fundið fyrir þráðum Kyleena við samfarir. Þetta þýðir ekki að það hafi færst úr stað. Hins vegar getur heilbrigðisstarfsmaður gert ýmislegt til að hjálpa ef maka þínum finnst óþægilegt að finna fyrir þráðunum.

Tíðavörur

Ef þú hefur blæðingar er best að nota dömubindi. Ef þú notar tíðatappa eða tíðabikar skaltu gæta varúðar þegar þú skiptir þeim út. Annars gætir þú óvart togað í þræðina á Kyleena. Ef þú heldur að þú hafir fært það úr stað (sjá upptalningu hugsanlegra ummerkja hér fyrir ofan), skaltu ekki hafa samfarir, nema þú notir smokk eða hettu, fyrr en þú hefur farið til heilbrigðisstarfsmanns.

Geðræn vandamál

Sumar konur sem nota hormónagetnaðarvarnir, þ.m.t. Kyleena, finna fyrir þunglyndi og dapurleika. Sjá kafla 4 undir „Geðræn vandamál“ fyrir frekari upplýsingar.

Börn og unglingar

Stúlkur sem ekki hafa fengið sínar fyrstu tíðablæðingar eiga ekki að nota Kyleena.

Notkun annarra lyfja samhliða Kyleena

Látið heilbrigðisstarfsmanninn vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð.

Meðganga, brjóstagjöf og frjósemi

Meðganga

Þú mátt ekki láta setja upp Kyleena ef þú ert þunguð.

Ef þú hættir að hafa blæðingar við notkun Kyleena 
Sumar konur hafa ekki blæðingar meðan þær nota Kyleena. Ef þú hefur ekki lengur blæðingar er það líklega vegna Kyleena. Þú getur lesið meira um þetta í kafla 4, undir „Óreglulegar eða fátíðar blæðingar“.

Hefur þú ekki haft blæðingar í sex vikur? Þá getur þú tekið þungunarpróf. Ef prófið segir að þú sért ekki þunguð er ekki þörf á að taka það aftur.

Ef þú finnur fyrir einkennum þungunar
Ef þú ert með einkenni þungunar eins og blæðingar sem stöðvast, ógleði og eymsli í brjóstum skaltu:
    1.    taka þungunarpróf
    2.    hafa samband við heilbrigðisstarfsmann til að fá skoðun.

Ef þú verður þunguð
Ef þú verður þunguð meðan þú notar Kyleena, skaltu tafarlaust fara til heilbrigðisstarfsmanns. Hann mun fjarlægja Kyleena.

Hætta er á fósturláti við fjarlægingu Kyleena. Hins vegar, ef þú heldur meðgöngunni áfram án þess að láta fjarlægja Kyleena, er aukin hætta á:

  • fósturláti
  • að barnið fæðist fyrir tímann

Leitaðu ráða hjá heilbrigðisstarfsmanni varðandi ávinning og áhættu af því að halda meðgöngunni áfram með Kyleena á sínum stað. Heilbrigðisstarfsmaðurinn mun fylgjast vandlega með þér. Hafðu tafarlaust samband við heilbrigðisstarfsmanninn ef þú færð:

  • krampa í kvið
  • magaverk
  • hita

Kyleena inniheldur hormón sem nefnist levónorgestrel. Spurðu heilbrigðisstarfsmanninn um áhrifin sem hormónið getur haft á þroska barnsins. Örfáar tilkynningar hafa borist um levónorgestrel lykkjur sem hafa áhrif á kynfæri kvenkyns barna í leginu.

Utanlegsþungun
Hættan á því að þú verðir þunguð á meðan þú notar Kyleena eru mjög litlar. Hins vegar, ef þú verður þunguð á meðan þú notar Kyleena, er aukin hætta á að frjóvgaða eggið sé ekki í leginu heldur í eggjaleiðara eða kviðarholi (utanlegsþungun). Slík þungun er alvarlegt ástand sem krefst tafarlausrar læknishjálpar. Eftir utanlegsþungun getur verið erfiðara að verða þunguð aftur. Sjá kafla 4 undir „Utanlegsþungun“.

Brjóstagjöf

Þú mátt nota Kyleena meðan á brjóstagjöf stendur. Lítið magn af hormóni berst í brjóstamjólkina. Hins vegar er ólíklegt að Kyleena hafi áhrif á gæði eða magn brjóstamjólkur eða vöxt og þroska barns sem er á brjósti.

Frjósemi

Ef þú vilt verða þunguð skaltu hafa samband við heilbrigðisstarfsmann til að láta fjarlægja Kyleena.

Kyleena hefur ekki áhrif á frjósemi eftir að það hefur verið fjarlægt.

Akstur og notkun véla

Kyleena hefur engin þekkt áhrif á hæfni til aksturs eða notkunar véla.

3. Hvernig nota á Kyleena

Byrjað að nota Kyleena

  • Áður en Kyleena er sett upp verður að ganga úr skugga um að þú sért ekki þunguð.
  • Setja á Kyleena upp innan 7 daga frá upphafi tíðablæðinga. Þegar það er sett upp á þessum dögum hefur það áhrif þegar í stað og kemur í veg fyrir þungun.
  • Ef ekki er hægt að setja Kyleena upp hjá þér innan 7 daga frá upphafi tíðablæðinga eða ef tíðablæðingar þínar eru ekki reglulegar er hægt að setja það upp hvenær sem er. Í slíkum tilvikum mátt þú ekki hafa haft óvarðar samfarir frá síðustu tíðablæðingum og þarft að sýna neikvætt þungunarpróf fyrir uppsetningu. Einnig er ekki hægt að tryggja að Kyleena veiti örugga getnaðarvörn þegar í stað. Þess vegna ættir þú að nota sæðishindrandi getnaðarvörn (svo sem smokk) eða sleppa samförum í leggöng fyrstu 7 dagana eftir uppsetningu þess.
  • Kyleena er ekki neyðargetnaðarvörn eins og „daginn eftir pillan“.

Byrjað að nota Kyleena eftir fæðingu

  • Hægt er að setja Kyleena upp eftir að legið hefur náð aftur eðlilegri stærð eftir fæðingu, en ekki fyrr en 6 vikum eftir fæðingu (sjá kafla 4 undir „Rof“).
  • Sjá einnig „Byrjað að nota Kyleena“ hér fyrir ofan, varðandi annað sem þarf að hafa í huga í sambandi við tímasetningu uppsetningar.

Byrjað að nota Kyleena eftir fósturlát

Hægt er að setja Kyleena upp strax eftir fósturlát ef það verður á fyrstu 3 mánuðum meðgöngu svo framarlega sem ekki er um að ræða sýkingu í kynfærum. Það hefur þá áhrif þegar í stað.

Byrjað að nota nýtt Kyleena þegar þarf að skipta út eldra Kyleena

Hægt er að skipta eldra Kyleena út fyrir nýtt Kyleena hvenær sem er í tíðahringnum. Það hefur þá áhrif þegar í stað.

Skipt úr annarri getnaðarvarnaaðferð (t.d. samsettum hormónagetnaðarvarnatöflum eða ígræði)

  • Setja má Kyleena upp strax ef nægilega öruggt er talið að þú sért ekki þunguð.
  • Ef meira en 7 dagar eru liðnir frá upphafi tíðablæðinga ættir þú að sleppa samförum í leggöng eða nota viðbótargetnaðarvarnir næstu 7 daga.

Hvað gerist við uppsetningu Kyleena?

Skoðun fyrir uppsetningu
Stundum vill heilbrigðisstarfsmaður framkvæma tilteknar rannsóknir fyrir uppsetningu Kyleena, til dæmis:

  • strok úr hálsi legsins (frumustrok úr leghálsi)
  • brjóstaskoðun
  • önnur próf eftir þörfum, til dæmis fyrir kynsjúkdómum.

Uppsetning Kyleena
Fyrst mun heilbrigðisstarfsmaður athuga stærð legsins og nákvæma staðsetningu þess í kviðnum (grindarholsskoðun).

Heilbrigðisstarfsmaður setur áhald (andarnefju) upp í leggöngin og hreinsar leghálsinn með sótthreinsandi vökva. Stundum staðdeyfir heilbrigðisstarfsmaðurinn leghálsinn. Heilbrigðisstarfsmaðurinn kemur Kyleena síðan fyrir í leginu með mjórri, sveigjanlegri plastslöngu (uppsetningarhylki).

Stundum getur uppsetning Kyleena verið óþægileg. Sumar konur finna fyrir sundli eða það líður yfir þær. Þú gætir líka fundið fyrir verkjum eða blæðingum frá leggöngum. Þetta er ekki óvenjulegt.

Þegar uppsetningunni er lokið mun heilbrigðisstarfsmaðurinn afhenda þér kort: áminningarkort sjúklings. Þú getur skrifað á kortið hvenær þú átt að fara í næstu Kyleena skoðun. Hafðu kortið meðferðis við hverja komu til læknisins.

Eftirlit eftir uppsetningu
Þú átt að fara til heilbrigðisstarfsmannsins í eftirlit með Kyleena 4-6 vikum eftir uppsetningu. Heilbrigðisstarfsmaðurinn mun ákveða hversu oft þú eigir að koma í skoðun eftir það. Þú átt að fara í eftirlit með Kyleena að minnsta kosti einu sinni á ári. Hafðu kortið meðferðis við hverja komu til læknisins.

Hvernig þú getur athugað hvort Kyleena hafi færst úr stað
Þú getur athugað þetta með því að stinga fingri varlega upp í leggöngin. Þú ættir þá að geta fundið fyrir þráðunum efst í leggöngunum, nálægt leghálsinum. Leghálsinn er inngangurinn að leginu. Athugaðu: þú mátt ekki toga í þræðina því þú gætir dregið Kyleena út fyrir slysni.

Ef þú finnur ekki fyrir þráðunum verður þú að láta heilbrigðisstarfsmanninn athuga hvort Kyleena hafi færst úr stað. Þú skalt ekki hafa samfarir nema þú notir smokk eða hettu fyrr en þú hefur farið til heilbrigðisstarfsmannsins.

Ef þú finnur fyrir neðri plastenda Kyleena - eða ef maki þinn finnur fyrir honum – er Kyleena ekki á réttum stað. Farðu tafarlaust til heilbrigðisstarfsmannsins. Þú skalt ekki hafa samfarir fyrr en þú hefur farið til heilbrigðisstarfsmannsins nema þú notir smokk eða hettu.

Kyleena fjarlægt

Kyleena virkar í allt að 5 ár. Þú skalt láta fjarlægja það eftir 5 ár, en þú getur líka látið fjarlægja það hvenær sem er innan þessara 5 ára. Heilbrigðisstarfsmaðurinn mun fjarlægja það. Eftir að það hefur verið fjarlægt getur þú aftur orðið þunguð.

Það getur verið svolítið óþægilegt að láta fjarlægja Kyleena. Sumar konur finna fyrir sundli eða það líður yfir þær þegar Kyleena er fjarlægt eða strax að því loknu. Þú gætir líka fundið fyrir lítils háttar verk eða blæðingu frá leggöngum. Þetta er ekki óvenjulegt.

Áframhaldandi getnaðarvarnir eftir fjarlægingu
Ef þú vilt ekki verða þunguð eftir að Kyleena hefur verið fjarlægt þarftu að vita að:

  • Best er að láta fjarlægja Kyleena innan 7 daga frá upphafi blæðinga. Ef það er fjarlægt án þess að þú sért á blæðingum verður þú að nota smokk eða hettu við samfarir í 7 daga áður en lykkjan er fjarlægð. 
  • Ef þú hefur óreglulegar eða engar blæðingar verður þú að nota smokk eða hettu við samfarir í 7 daga áður en lykkjan er fjarlægð. Óreglulegar blæðingar þýðir að fjöldi daga á milli blæðinga er ekki alltaf sá sami.
  • Einnig má setja upp nýtt Kyleena strax eftir að það eldra hefur verið fjarlægt og þarf þá ekki viðbótar getnaðarvörn. Ef þú óskar ekki eftir að halda áfram að nota sömu getnaðarvarnaraðferð skaltu spyrja heilbrigðisstarfsmanninn um ráð varðandi aðrar öruggar getnaðarvarnir.

Top

4. Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum en það gerist þó ekki hjá öllum.

Alvarlegar aukaverkanir

Nokkrar alvarlegar aukaverkanir geta komið fyrir, sem þýðir að ef þú færð þær verður þú tafarlaust að hafa samband við heilbrigðisstarfsmanninn:

  • magaverkur, hiti, óvenjuleg útferð eða óeðlilegar blæðingar frá leggöngum eða verkir við samfarir - þetta getur verið sýking í legi, eggjaleiðurum eða eggjastokkum - sjá hér að neðan undir „Sýking í grindarholi“.
  • miklir verkir sem líkjast tíðaverkjum, meiri verkur en þú bjóst við eða mjög miklar blæðingar frá leggöngum eftir uppsetningu. Þú getur einnig fengið verk eða blæðingar sem vara lengur en í nokkrar vikur, skyndilegar breytingar á tíðablæðingum, verki við samfarir eða þú finnur ekki lengur fyrir þráðum Kyleena. Þetta geta verið merki um rof – sjá hér að neðan undir „Rof“.
  • tíðablæðingar hafa stöðvast, en síðan færðu blæðingar úr leggöngum sem stöðvast ekki eða verki í neðri hluta kviðar sem eru miklir eða hverfa ekki – þetta geta verið merki um utanlegsþungun– sjá hér að neðan undir „Utanlegsþungun“.
  • þú finnur fyrir skapbreytingum og þunglyndiseinkennum – sjá hér að neðan undir „Geðræn vandamál“.
  • ofnæmisviðbrögð – eins og húðútbrot, ofsakláða eða bólgna tungu, varir, andlit eða háls. Þessi tegund viðbragða er mjög sjaldgæf.

Ef þú heldur að eitthvað af ofantöldu eigi við um þig skaltu tafarlaust hafa samband við heilbrigðisstarfsmanninn.

Aðrar aukaverkanir

Hér að neðan eru aðrar aukaverkanir sem þú gætir fengið. Þær aukaverkanir sem oftast koma fyrir eru efst á listanum og þær sem koma sjaldnar fyrir eru neðstar.
    
Mjög algengar aukaverkanir: geta komið fyrir hjá fleiri en 1 af hverjum 10 einstaklingum

  • Höfuðverkur
  • Kviðverkur eða grindarholsverkur
  • Blettir (þrymlabólur) eða feit húð
  • Breytingar á blæðingum, til dæmis:

    • blæðingar sem eru meiri eða minni en venjulega
    • blæðingar eða smáblæðingar (blettablæðingar) þegar þú ert ekki á blæðingum
    • óreglulegar og fátíðar blæðingar
    • þú hættir að hafa blæðingar

    Þú getur lesið meira um þetta í kaflanum  „Óreglulegar eða fátíðar blæðingar“ hér að neðan.

  • Litlar vökvafylltar blöðrur á eggjastokkum. Þú getur lesið meira um þetta í kaflanum „blöðrur á eggjastokkum“ hér að neðan
  • Bólga í skapabörmum og leggöngum (skapa- og leggangabólga)

Algengar aukaverkanir: geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum

  • Minnkuð kynhvöt
  • Mígreni
  • Sundl
  • Ógleði
  • Hármissir
  • Verkir við tíðablæðingar
  • Verkur eða eymsli í brjóstum
  • Kyleena kemur út af sjálfu sér (allt eða að hluta til). Þú getur lesið meira um þetta í kaflanum „Ef Kyleena dettur úr“ hér að neðan
  • Útferð úr leggöngum
  • Þyngdaraukning

Sjaldgæfar aukaverkanir: geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum

  • Aukinn hárvöxtur á líkama

Lýsing valinna aukaverkana:

Utanlegsþungun

Einkenni utanlegsþungunar eru m.a.:

  • tíðablæðingar hafa stöðvast, en þá færðu blæðingar úr leggöngum sem stöðvast ekki
  • þú ert með verki í neðri hluta magans sem eru miklir eða hverfa ekki
  • þú ert með eðlileg einkenni þungunar, t.d. ógleði eða viðkvæm brjóst, en þú ert líka með blæðingu úr leggöngum og finnur fyrir sundli
  • þungunarpróf er jákvætt

Hafðu tafarlaust samband við heilbrigðisstarfsmanninn ef þú ert með einhver þessara einkenna.

Hættan á því að þú verðir þunguð á meðan þú notar Kyleena eru mjög litlar. Hins vegar, ef þú verður þunguð á meðan þú notar Kyleena, er aukin hætta á að frjóvgaða eggið sé ekki í leginu heldur í eggjaleiðara eða kviðarholi (utanlegsþungun). Um það bil 2 af hverjum 1000 konum sem nota Kyleena í eitt ár upplifa utanlegsþungun. Slík þungun er alvarlegt ástand sem krefst tafarlausrar læknishjálpar. Þú gætir þurft á skurðaðgerð að halda.

Sumar konur eru líklegri til að fá utanlegsþungun. Þetta eru konur sem:

  • hafa áður fengið utanlegsþungun
  • hafa farið í aðgerð á eggjaleiðurum
  • hafa fengið sýkingu í grindarhol

Óreglulegar og fátíðar blæðingar

Líklegt er að blæðingarnar breytist af völdum Kyleena. Til dæmis:

  • Þú gætir fengið lítils háttar blæðingar þegar þú ert ekki á blæðingum. Þessar blæðingar eru kallaðar blettablæðingar.
  • Blæðingarnar geta komið sjaldnar. Í því tilviki er fjöldi daga á milli blæðinga ekki alltaf sá sami.
  • Blæðingarnar geta verið styttri eða lengri.
  • Þú gætir misst minna eða meira blóð en venjulega þegar þú ert á blæðingum.
  • Þú hættir að hafa blæðingar.

Stundum koma þessar breytingar aðeins fyrir á fyrstu mánuðunum eftir uppsetningu. Til dæmis:

  • Blæðingar eða blettablæðingar þegar þú ert ekki á blæðingum eru algengastar fyrstu 3 til 6 mánuðina.
  • Sumar konur fá meiri blæðingar en venjulega í fyrstu.

Smám saman gætir þú misst minna blóð í hverjum mánuði og haft styttri blæðingar. Á endanum geta sumar konur hætt að hafa blæðingar.

Ertu hætt að hafa blæðingar? Þetta er yfirleitt eðlilegt. Venjulega þýðir það ekki að þú sért þunguð eða hafir náð tíðahvörfum. Þetta er ástæðan: venjulega þykknar legslímhúðin í hverjum mánuði til að undirbúa sig fyrir þungun og þynnist svo aftur þegar þú færð blæðingar. Kyleena dregur úr þykknun legslímhúðarinnar. Þetta getur valdið því að blæðingar stöðvast. Magn eigin hormóna í líkamanum helst yfirleitt eðlilegt.

Ef þú lætur fjarlægja Kyleena hefjast blæðingarnar venjulega á ný. Ef það gerist ekki skaltu hafa samband við heilbrigðisstarfsmanninn.

Sýking í grindarholi

Kyleena er laus við bakteríur, veirur og sveppi (dauðhreinsað). Þetta á einnig við um uppsetningarbúnaðinn. Samt sem áður getur þú fengið sýkingu í grindarhol við uppsetningu Kyleena eða á fyrstu 3 vikunum eftir uppsetningu, til dæmis í slímhúð legsins, eggjaleiðurum eða eggjastokkum. Þetta getur komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum.

Þú gætir fengið:

  • magaverk
  • hita
  • óvenjulega útferð úr leggöngum
  • verki við samfarir

Þú ert í meiri hættu á að fá sýkingu í grindarhol ef:

  • þú ert með kynsjúkdóm
  • þú eða maki þinn hafið mök við marga rekkjunauta
  • þú hefur áður fengið sýkingu í grindarhol

Ef þú færð sýkingu í grindarhol er mikilvægt að þú farir strax til læknis. Grindarholssýking getur valdið:

  • frjósemisvandamálum eftir á. Þetta gæti þýtt að þú eigir erfiðara með að verða þunguð
  • þungun utan legsins (utanlegsþungun) ef þú verður þunguð
  • alvarlegri sýkingu eða blóðeitrun. Þetta kemur örsjaldan fyrir og gerist skömmu eftir uppsetningu Kyleena. Blóðeitrun þýðir að þú verður mjög veik af völdum sýkingar. Blóðeitrun getur verið banvæn ef hún er ekki meðhöndluð

Þú verður að láta fjarlægja Kyleena ef grindarholssýkingin:

  • kemur aftur nokkrum sinnum
  • er mjög alvarleg
  • lagast ekki við meðferð

Ef Kyleena dettur út

Kyleena gæti ýst úr stað eða dottið út. Þetta stafar af samdrætti í vöðvum í leginu þegar þú ert á blæðingum. Þetta getur gerst hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum, sérstaklega ef þú:

  • ert of þung þegar Kyleena er sett upp
  • hefur áður verið með miklar tíðablæðingar

Ef Kyleena hefur færst úr stað er ekki víst að það virki lengur sem skyldi. Þú verður í meiri hættu á að verða þunguð. Ef það dettur út kemur það ekki lengur í veg fyrir að þú verðir þunguð.

Ef Kyleena hefur færst úr stað eða dottið út gætir þú fundið fyrir verkjum eða blæðingum frá leggöngum sem eru öðruvísi en venjulega. Einnig er mögulegt að Kyleena detti út án þess að þú takir eftir því.

Kyleena dregur venjulega úr magni blóðsins sem þú missir þegar þú ert á blæðingum. Því lengur sem þú notar það, því minna blóð missir þú við blæðingar. Þetta þýðir að ef þú byrjar skyndilega að missa meira blóð en áður þegar þú ert á blæðingum gæti Kyleena hafa dottið út. Sjá kafla 3 „Hvernig þú getur athugað hvort Kyleena hafi færst úr stað“ til að fá upplýsingar um hvernig þú getir athugað hvort það hafi færst úr stað og hvað gera skuli ef þig grunar að það hafi færst úr stað.

Rof

Það getur gerst að Kyleena ýtist inn í legvegginn eða í gegnum legvegginn. Þetta er kallað rof. 
Rof kemur venjulega fyrir við uppsetningu Kyleena. Rof veldur ekki alltaf verkjum, þess vegna er hugsanlegt að þú takir ekki eftir því fyrr en síðar. Ef það er ekki lengur á sínum stað vegna rofs, vinnur það ekki lengur gegn þungun. Læknir verður þá að fjarlægja það eins fljótt og auðið er. Stundum er skurðaðgerð nauðsynleg.

Rof á sér stað hjá allt að 1 af hverjum 1000 einstaklingum. Þú ert í meiri hættu (allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum) á rofi ef:

  • þú ert með barn á brjósti við uppsetningu Kyleena 
  • þú eignaðist barn á síðustu 9 mánuðunum fyrir uppsetningu Kyleena

Þú gætir verið með rof ef þú:

  • ert með mikla verki sem líkjast tíðaverkjum eða meiri verki en þú bjóst við
  • ert með mjög miklar blæðingar frá leggöngum eftir uppsetningu
  • ert með verk eða blæðingar sem vara lengur en í nokkrar vikur
  • skyndilegar breytingar koma fram á tíðahringnum
  • finnur fyrir verkjum við samfarir
  • finnur ekki lengur fyrir þráðum Kyleena

Ef þig grunar að rof hafi orðið skaltu tafarlaust hafa samband við heilbrigðisstarfsmanninn. Minntu hann á að þú sért með Kyleena, sérstaklega ef hann framkvæmdi ekki uppsetninguna.

Blöðrur á eggjastokkum

Stundum getur myndast lítill vökvafylltur sekkur á eggjastokk við notkun Kyleena. Slíkur sekkur er kallaður blaðra á eggjastokki.

Einkenni blöðru á eggjastokki geta verið:

  • verkur í grindarholi
  • verkur eða óþægindi við samfarir.

Blöðrur á eggjastokkum hverfa yfirleitt af sjálfu sér. Hins vegar geta þær krafist læknisaðstoðar. 
Í mjög sjaldgæfum tilvikum gæti verið þörf á skurðaðgerð. Ef þú heldur að þú gætir verið með blöðru á eggjastokk skaltu hafa samband við heilbrigðisstarfsmanninn.

Geðraskanir

Sumar konur sem nota hormónagetnaðarvarnir, þ.m.t. Kyleena, finna fyrir þunglyndi og dapurleika. Þunglyndi getur verið alvarlegt og stundum leitt til sjálfsvígshugsana. Ef þú finnur fyrir skapbreytingum og einkennum þunglyndis skaltu hafa samband við heilbrigðisstarfsmanninn eins fljótt og hægt er. Þunglyndi og dapurleiki geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum sem nota Kyleena.

Tilkynning aukaverkana

Látið heilbrigðisstarfsmanninn vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint til Lyfjastofnunar, www.lyfjastofnun.is. Með því að tilkynna aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

Top

5. Hvernig geyma á Kyleena

Engin sérstök fyrirmæli eru um geymsluaðstæður lyfsins.
    
Geymið lyfið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Rjúfið ekki þynnupakkninguna (plastílátið sem geymir Kyleena). Eingöngu heilbrigðisstarfsmaðurinn á að gera það.
Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á öskjunni og þynnunni á eftir EXP. Fyrningardagsetning er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Top

6. Pakkningar og aðrar upplýsingar

Kyleena inniheldur

Virka innihaldsefnið er levónorgestrel. Leginnleggið inniheldur 19,5 mg af levónorgestreli.

Önnur innihaldsefni eru:

  • pólýtvímetýlsíloxan plastefni (elastomer)
  • vatnsfrí kísilkvoða
  • pólýetýlen
  • baríumsúlfat
  • pólýprópýlen
  • kopar phthalósýanín
  • silfur

Lýsing á útliti Kyleena og pakkningastærðir


Kyleena er hormónalykkja (innlegg til notkunar í legi). Hún er í laginu eins og stafurinn T og er hvít að lit. Á lóðrétta hlutanum er lítið ílát með hormóninu levónorgestreli. Tveir bláir þræðir eru festir við neðstu lykkjuna. Þetta gerir heilbrigðisstarfsmanni kleift að fjarlægja Kyleena. Einnig hefur hún silfurhring nálægt láréttu örmum Kyleena. Heilbrigðisstarfsmaðurinn getur séð þennan hring við ómskoðun.

Pakkningastærðir:

  • 1x1 leginnlegg
  • 5x1 leginnlegg

Ekki er víst að báðar pakkningastærðir séu markaðssettar.

Markaðsleyfishafi:

Markaðsleyfishafi:  
Bayer AB  
Box 606  
SE-169 26 Solna  
Svíþjóð

Framleiðandi:  
Bayer Oy  
Pansiontie 47  
20210 Turku  
Finnland

Þetta lyf hefur markaðsleyfi í löndum Evrópska efnahagssvæðisins undir eftirfarandi heitum:

  • Austurríki, Belgía, Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Írland, Ísland, Ítalía, Lettland, Litháen, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð: Kyleena

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður í nóvember 2024.

Upplýsingar sem hægt er að nálgast annars staðar

Hægt er að nálgast ítarlegar og uppfærðar upplýsingar um Kyleena með því að skanna QR-kóðann, sem er að finna í fylgiseðlinum, á ytri umbúðum og á sjúklingakortinu, með snjallsíma. Einnig er hægt að nálgast upplýsingarnar á vefslóðinni: www.pi.bayer.com/kyleena/dk-is-no-se og á vefsíðum Lyfjastofnunar, www.serlyfjaskra.is